Afstaða til ESB hefur lengi verið eitt af þeim álitaefnum sem hefur klofið þjóðina. Bubbi segir, í samtali við Vísi, að hans afstaða til þessa hafi verið sú að vera andvígur því að ganga í ESB. En nú telur hann tímabært að ræða það í fullri alvöru hvort ekki sé vert að ganga í ESB, sama hvað andstæðingar aðildar segja. Innrásin í Úkraínu hafi breytt stöðunni yfir nóttu. Veröldin sem var er horfin. Íslendingar séum of berskjaldaðir.
„Ég er ekki hálfviti - við ættum að ganga í Evrópusambandið. Þegar ég sé hvað er að gerast á bæjarhlaðinu finnst mér þetta nú vera algjörlega gild umræða og ég er kominn á að við eigum að ganga í Evrópusambandið. ég er kominn þangað og tel það okkur til góðs.“
Bubbi segist afstöðu sína ekki grundvallast á gjaldmiðlinum, Evrunni, þeirri sem ríka fólkið og útgerðin notar en við hin fáum ekki að nota.
„Heldur öryggi þjóðanna. Ég tel, eins og staðan er í dag, mjög mikilvægt fyrir land eins og Ísland að taka þessa afstöðu. Við ætlum að ganga í Evrópusambandið á þeim forsendum.“
Bubbi vísar þar til ógnarinnar sem stafar af Pútín. „Og þeir eru fleiri eins og hann. Við erum komin á þennan stað.“
Og Bubbi er ekki einn á báti frekar en fyrri daginn. Nú styðja 47 prósent landsmanna aðild Íslands að Evrópusambandinu, en 33 prósent eru henni andvígir. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup og er viðsnúingur frá fyrri mælingum.