Hér erum við að tala um Garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi, sem stofnaður var 1939. Skólinn var sjálfstæður í 66 ár en árið 2005 var starfsemin færð undir Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.
Nú er svo komið að nemendur og starfsmenn á Reykjum vilja fara undan hatti Landbúnaðarháskólans þannig að skólinn geti orðið sjálfstæður á ný og fari þá ekki heldur undir Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Snjólaug María Jónsdóttir er nemandi á skrúðgarðyrkjubraut skólans.
„Málið er allur húsakostur skólans, það er það sem við erum að þrýsta á, að það verði gengið frá því hvað verði um húsin, eiga þau að fylgja skólanum eða verða þau áfram undir Landbúnaðarháskóla Íslands?,“ segir Snjólaug.

Snjólaug segir að ef verknámsaðstaðan á Reykjum og gróðurhúsin fylgi ekki skólanum fari hann undir Fjölbrautaskóla Suðurlands þá séu nemendur í slæmum málum, þá sé ekkert verknám í boði, því skólinn á Selfossi hafi enga þannig aðstöðu eins og gróðurhús.
„Óvissan er alveg svakaleg og fer rosalega illa í nemendur, starfsfólk og kennara. Það veit engin hvað verður. Erum við að mæta í Garðyrkjuskólann aftur í haust eins og hann er eða verða breytingarnar jafnvel það miklar að þetta gangi ekki upp. Það í rauninni veit engin neitt í augnablikinu.“
Af þeirri ástæðu hafa nemendur skólans, sem eru 116 í dag, bæði í fjarnámi og staðarnámi boðað til málþings laugardaginn 19. mars á Reykjum um framtíð skólans.
„Okkur vantar bara hjálp að fá stuðning fyrir því að þetta fari í gegn og að garðyrkjunám á Íslandi haldi sínum húsum og sínu svæði og við getum eflt það,“ segir Snjólaug.
