Handbolti

„Búinn að bíða eftir tækifærinu og nýt þess að spila“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Snær Óskarsson með verðlaunagripinn sem hann fékk fyrir að vera bestur á úrslitahelgi Coca Cola bikarsins.
Arnór Snær Óskarsson með verðlaunagripinn sem hann fékk fyrir að vera bestur á úrslitahelgi Coca Cola bikarsins. vísir/hulda margrét

Arnór Snær Óskarsson var valinn besti leikmaður bikarúrslitahelgarinnar þar sem Valur stóð uppi sem sigurvegari.

Hann skoraði þrettán mörk þegar Valur vann stórsigur á FH, 27-37, í undanúrslitunum og fylgdi því eftir með fimm mörkum í úrslitaleiknum þar sem Valsmenn unnu KA-menn, 36-32.

„Tilfinningin er geggjuð. Þetta var þvílíkur leikur. Við byrjuðum illa en komum sterkir til baka. Vörnin small og við fórum að keyra á þá. Þetta var geggjaður leikur. KA-menn voru frábærir,“ sagði Arnór við Vísi eftir leik.

Valsmenn voru ekki sjálfum sér líkir í vörninni í fyrri hálfleik þar sem þeir fengu á sig sautján mörk en hún lagaðist aðeins í þeim seinni.

„Við vorum út um allt, misstum menn framhjá okkur og vorum of staðir. Þetta var bara lélegt. En við þéttum þetta og það var lykilinn að þessu,“ sagði Arnór.

Valsmenn keyrðu grimmt á KA-menn og uppskáru fjölda marka eftir hraðaupphlaup og hraða miðju.

„Við erum með Bjögga [Björgvin Pál Gústavsson] sem er frábær að kasta fram og Einar Þorstein [Ólafsson] sem keyrir eins og brjálæðingur. Við viljum keyra, keyra og keyra og þreyta hin liðin,“ sagði Arnór sem hefur spilað einstaklega vel að undanförnu.

„Ég er búinn að bíða eftir tækifærinu og nýt þess að spila. Liðið var frábært í dag og það var flott að fá þennan titil.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×