Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Ég er næstum því miðaldra, hvítur, femínskur, gagnkynhneigður, ófatlaður, vegan karlmaður sem er menntaður í kynjafræðum, faðir og eiginmaður sem starfar við fyrirlestra, samfélagsmiðla og hlaðvarpsgerð.
Hvað veitir þér innblástur?
Ég fæ auðveldlega innblástur úr ólíklegustu áttum. Til dæmis þegar ég er að horfa á þætti, hlusta á tónlist, lesa greinar, hljóðbækur eða sé ömurleg hot takes frá einhverjum karlrembum. Þá fæ ég oft hugmyndir eða drifkraft.
Mesta innblásturinn fæ ég samt sennilega frá réttsýnu fólki sem stendur fast á sínum gildum og sannfæringu og ögrar valdi og yfirlæti, sama hvert óréttlætið er.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Einvera og það að stússast einn í einhverju nærir mig óendanlega.
Mér finnst líka mjög nærandi að brjóta upp hversdagsleikann með Huldu, konunni minni, og börnunum og fara í göngutúr í Elliðaárdalnum, bíltúr í Hveragerði eða eitthvert út fyrir borgina eða bara út að borða. Lang best er auðvitað að hafa eitthvað stórt til að hlakka til eins og að fara í frí í sólina.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Vinnudagurinn er nánast aldrei eins.
Stundum er ég bókaður í fyrirlestra, annars er ég með hlaðvarpsviðtöl eða undirbúa þau, undirbúa fræðslupósta á samfélagsmiðla eða átaksverkefni um jákvæða karlmennsku, sem ég er að gera akkúrat núna.
En fastinn er að vakna kl. 7.30 og borða morgunmat. Skutla í leikskóla klukkan níu og sækja klukkan fjögur. Síðan er yfirleitt smá stúss, kvöldmatur klukkan 18:30, svæfa 19:30 og eilífa verkefnið að reyna að finna eitthvað til að horfa á um kvöldið. Eða nýta kvöldin í að klára verkefni eins og að svara svona spurningum sem ég hef ekki komist í síðastliðna daga.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Að hafa gott fólk til að deila því með, hlæja, njóta, elska, gleðjast og takast á við erfiðleika saman.
Fólkið mitt er klárlega það skemmtilegasta og allra besta við lífið.