Handbolti

Bjarki skoraði tíu í Íslendingaslagnum og skaut Lemgo í undanúrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson hefur verið sjóðandi heitur í liði Lemgo upp á síðkastið.
Bjarki Már Elísson hefur verið sjóðandi heitur í liði Lemgo upp á síðkastið. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Bjarki Már Elísson átti enn einn stórleikinn í liði Lemgo er hann skoraði tíu mörk fyrir liðið í átta-liða úrslitum þýska bikarsins í handbolta í kvöld. Lemgo sló Íslendingalið Melsungen úr leik með fjögurra marka sigri, 28-24.

Lemgo er því á leið í undanúrslit þar sem liðið mætir Kiel. Bjarki og félagar eru ríkjandi bikarmeistarar og liðið á því titil að verja.

Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Magdeburg og Erlangen. Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson leika með Magdeburg og Ólafur Stefánsson er nýráðinn aðstoðarþjálfari Erlangen.

Elvar Örn Jónsson, Arnar Freyr Arnarsson og Alexander Petersson komust allir á blað fyrir Melsungen í kvöld. Elvar skoraði fjögur, Arnar tvö og Alexander eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×