Blikakonur voru staddar í Karkív vegna leiks við heimakonur í Meistaradeild Evrópu í fótbolta 9. nóvember. Leiknum lauk með markalausu jafntefli og Kópavogsliðið sótti þannig sitt eina stig í riðlakeppninni til Úkraínu.
Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir, formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá Breiðabliki, endurvarpaði myndskeiði frá Frelsistorginu í Karkív þar sem Dani Rivers, fréttamaður ITV, sýnir eyðilegginguna eftir eldflaugaárásina.
Þetta er hryllilegt, fallega torgið sem ég stóð á áhyggjulaus á fyrir þremur mánuðum, sprengt upp https://t.co/QT5DYw835P
— Ingibjörg Auður (@ingibog89) March 1, 2022
Innanríkisráðuneyti Úkraínu segir minnst tíu almenna borgara hafa fallið í eldflaugaárásinni í Karkív sem Vólódímir Selenskí, forseti Úkraínu, hefur lýst sem hreinu og kláru hryðjuverki. Minnst 35 manns munu hafa særst.
„Þetta er án nokkurs vafa stríðsglæpur. Gegn friðsælli borg. Friðsælum íbúðahverfum. Ekki nokkur hergögn í sjónmáli,“ sagði Selenskí í myndbandi á Facebook-síðu sinni.