Keppendur höfðu frest þangað til í gær til að skila æfingunum og nú þarf einungis að bíða eftir endanlegri staðfestingu frá CrossFit samtökunum. Sætin gætu því enn eitthvað hliðrast til.
Anníe Mist er í 36. sæti og efst íslenskra kvenna en Björgvin Karl Guðmundsson er efstur íslenskra karla. Hann er í 50. sætinu. Anníe náði 360 endurtekningum en 22.1 hlutinn vannst á 392 endurtekningum.
Anníe Mist er 22 sætum á undan Þuríði Erlu Helgadóttir (58. sæti) og 47 sætum á undan Andreu Ingibjörgu Orradóttur sem er þriðja best íslensku kvennanna og í 83. sæti.
Sara Sigmundsdóttir er í 118. sæti og Katrín Tanja Davíðsdóttir er í 137. sæti. Þær Steinunn Anna Svansdóttir og Sólveig Sigurðardóttir eru síðan jafnar í 144. sæti.
Björgvin Karl er 480 sætum á undan næsta íslenska karlmanni en Haraldur Holgersson er í 530. sæti. Þorri Þorláksson er síðan í 762. sæti og undan þeim Alex Daða Reynisson (798. sæti) og Ingvari Svavarssyni (896. sæti). Björgvin náði 352 endurtekningum en 22.1 hlutinn vannst á 390 endurtekningum.
Svíinn Victori Ljungdal er efstur hjá körlunum og Kanadamaðurinn Cédric Lapointe er annar. Næstir eru síðan Bandaríkjamaðurinn Saxon Panchik og Driss Bouchiah frá Marokkó. Heimsmeistarinn Justin Medeiros er í fimmta sætinu.
Hjá konunum er hin átján ára gamla Mallory O'Brien efst og Pólverjinn Gabriela Migala er önnur og hin átján ára Emma Cary er þriðja. Norðmenn eiga greinilega efnilega stelpu því hin átján ára Leah Stören deilir fimmta sætinu með heimsmeistaranum Tiu-Clair Roomet og Karin Freyová frá Slóvakíu.
Hér fyrir neðan má sjá þessa fyrstu æfingu í The Open í ár.