Það hefur gerst að tveir ættliðir spili saman í liðsíþróttum en sjaldan þrír. Það gerðist þó um helgina en frá þessu er greint á vef Keilusambands Íslands. Lið KFR JP-Kast í 2. deild stillti upp þremur ættliðum í keppni helgarinnar.
Það voru þeir Ólafur Ólafsson, sonur hans Konráð Þór Ólafsson og hans sonur Ísak Freyr Konráðsson sem léku alla þrjá leikina og höfðu þeir sigur, 10 stig gegn 4 á móti félögum sínum úr KFR-Þröstum.
Ólafur mun fagna 75 ára afmæli sínu síðar á árinu en hefur verið virkur í keilusamfélaginu um langt árabil ásamt Konráði syni sínum. Nú er Ísak Freyr kominn á fullt í íþróttinni og aldrei að vita nema þeir félagar eigi eftir að spila fleiri leiki saman á Íslandsmótinu.