Sport

Íslenskur pílukastari keppir við þá bestu í heimi í Köben í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jonny Clayton og Michael van Gerwen kepptu báðir á Nordic Darts Masters í fyrra og sá síðarnefndi vann mótið. Í ár verður Íslendingur meðal þátttakenda og langlíklegast þykir að það verði Íslandsmeistarinn Matthías Örn Friðriksson.
Jonny Clayton og Michael van Gerwen kepptu báðir á Nordic Darts Masters í fyrra og sá síðarnefndi vann mótið. Í ár verður Íslendingur meðal þátttakenda og langlíklegast þykir að það verði Íslandsmeistarinn Matthías Örn Friðriksson. getty/alex burstow

Í fyrsta sinn mun Íslendingur keppa á Nordic Darts Masters þar sem átta bestu pílukastarar heims mæta átta keppendum frá Norður- og Eystrasaltslöndunum. Mótið fer fram í Kaupmannahöfn 10. og 11. júní.

Ljóst er að Lettinn Madars Razma, Litháinn Darius Labanauskas og Daninn Vladimir Andersen keppa fyrir hönd Norður- og Eystrasaltslandanna á Nordic Darts Masters. Auk þeirra verða tveir keppendur frá Danmörku, einn frá Finnlandi, einn frá Svíþjóð og einn frá Íslandi, í fyrsta sinn.

Sá Íslendingur sem verður efstur á stigalista PDC Nordic&Baltic mótaraðarinnar 5. júní fær þátttökurétt á mótinu í Kaupmannahöfn.

Eins og staðan er núna er Íslandsmeistarinn Matthías Örn Friðriksson langefstur Íslendinganna á stigalistanum. Hann er með fjögur hundruð stig í 7. sæti listans. Þar á eftir kemur Hallgrímur Egilsson sem er í 24. sæti með hundrað stig. Pétur Rúðrik Guðmundsson er svo í 35. sætinu með fimmtíu stig.

Tvö mót eiga eftir að fara fram á PDC Nordic&Baltic mótaröðinni áður en Nordic Darts Masters hefst. Þau fara fram í Finnlandi helgina 4.-5. júní.

Michael van Gerwen vann Nordic Darts Masters í fyrra en hann sigraði Fallon Sherrock í úrslitaleik, 11-7. Meðal annarra sem kepptu á mótinu á síðasta ári má nefna Gerwyn Price, Jonny Clayton, Gary Anderson og heimsmeistarann Peter Wright.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×