Körfubolti

Sjúkdómur kemur í veg fyrir að sænsk körfuboltakona spili í WNBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klara Lundquist í leik með sænska landsliðinu á Eurobasket 2019.
Klara Lundquist í leik með sænska landsliðinu á Eurobasket 2019. Getty/Srdjan Stevanovic

Klara Lundquist er ein efnilegasta körfuboltakona Svía og var komin á samning hjá Washington Mystics í WNBA-deildinni. Það verður þó ekkert af því að hún spili þar í ár.

Klara er 22 ára gömul og er þegar kominn í stórt hlutverk í sænska landsliðinu. Hún fór á kostum með Alvik 2020-21 tímabilið þar sem hún var með 21,8 stig, 6,7 stoðsendingar og 2,9 stolna bolta í leik.

Instagram

Klara byrjaði þetta tímabil með pólska liðinu Arka Gdynia en varð að segja upp samningi sínum og snúa heim til Svíþjóðar vegna veikinda. Hún átti að ganga til liðs við Washington Mystics þegar WNBA-deildin hefst í sumar.

Klara var hins vegar orkulaus og kraftlítil og nú er komið í ljós að hún er með Graves sjúkdóminn sem er ættlægur sjálfsofnæmissjúkdómur. Af einhverri ástæðu virðist líkaminn telja að skjaldkirtillinn sé utanaðkomandi hlutur sem beri að ráðast gegn.

Þegar þetta kom í ljós þá sagði Washington Mystics upp samningnum við hana.

„Ég hélt aldrei að þeir myndu finna eitthvað svona að mér en þeir gerðu það. Ég er byrjuð að taka lyf við þessu og ég er bara að bíða eftir því að geta byrjað að æfa aftur á fullu svo ég geti komið til baka sem fyrst,“ sagði Klara Lundquist við SVT.

Instagram/@svt

Auðvitað var það svekkjandi fyrir hana að missa af WNBA-deildinni.

„Þeir þurfa að skipuleggja sitt tímabil og þurftu því að taka ákvörðun með mig áður en það kom í ljós hvort ég gæti spilað eða ekki. Þeir frestuðu samningnum um eitt ár eins og þeir gerðu í fyrra líka. Það er svo leiðinlegt að fá ekki þetta tækifæri en vonandi kemur það bara næsta sumar í staðinn,“ sagði Klara.

„Ég reyni að mæta á æfingarnar og hitta stelpurnar. Sjúkdómurinn hefur ekki mikil áhrif á mig í í daglega lífinu en það er bara þegar ég fer að æfa. Ég get lært og það er því bara körfuboltinn sem er í pásu,“ sagði Klara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×