Lögreglan á Suðurlandi greinir frá því að þeir sem eru í bílum sem fastir eru á Þrengslaveginum verði fluttir í fjöldahjálparstöðuina en gert er ráð fyrir að allt að 100 manns sitji fastir.
Fyrr í dag var fjöldahjálparstöð opnuð í Hellisheiðavirkjun þar sem flytja þurfti farþega í 70 manna rútu sem stöðvaðist í Hveradalabrekkunni. Var óskað eftir aðstoð ferðaþjónustufyrirtækis við að ferja þá farþega í fjöldahjálparstöðina.
Þrengslunum var lokað fyrr í dag, ásamt Hellisheiðinni, en G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði það að mörgu leiti til hafa verið gert vegna fastra bíla.
Björgunarsveitir hafa því verið að vinna að því að losa fasta bíla í nokkrar klukkustundir en verulega erfið veðurskilyrði eru nú á svæðinu. Rauð veðurviðvörun tók gildi á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóa klukkan 17.
Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Landsbjörgu, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í kvöld að verkefnum björgunarsveitanna væri að fjölga en flest þeirra voru vegna fastra bíla, fok- eða vatnstjóns.