Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan en Ísland skoraði bæði mörk sín á fyrstu tuttugu mínútum leiksins áður en að Tékkar minnkuðu muninn þegar fimm mínútur voru eftir, eftir að Natasha komst afar nálægt því að skora sitt annað mark.
Amanda Andradóttir átti stóran þátt í báðum mörkum Íslands en hún gaf fyrirgjöfina þegar Natasha skoraði með þrumuskalla, og hóf svo skyndisóknina sem Selma kláraði með marki.
Þetta var fimmti A-landsleikur og fyrsta landsliðsmark Natöshu en þessi þrítugi miðvörður fékk íslenskan ríkisborgararétt í lok árs 2019.
Natasha, sem gekk í raðir Breiðabliks í vetur, hefur leikið á Íslandi frá árinu 2014, með ÍBV og síðar Keflavík.
Selma, sem sleit krossband í hné haustið 2019 og missti af tímabilinu 2020, hefur leikið með Breiðabliki stærstan hluta síns ferils en gekk í raðir norska stórliðsins Rosenborg í síðasta mánuði.