Þetta staðfestir Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, í samtali við fréttastofu.
„Þeir eru kaldir en það er í lagi með þá. Þeir verða fluttir niður af jöklinum í snjóbílum.“
Um er að ræða vana gönguskíðamenn frá Tékklandi sem hafa þverað Ísland að vetri til áður en þó aldrei farið yfir jökul.
„Við erum búnir að ná til þeirra. Þeir eru komnir inn í snjóbíl og lagðir af stað til byggða,“ segir Friðrik Jónas Friðriksson hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar, í samtali við Vísi. Hann áætlar að það muni taka um fjóra tíma að komast til byggða.
„Staðan er bara ágæt. Þeir eru mjög kaldir og hraktir en ágætlega á sig komnir,“ segir hann ennfremur. Ferðalangarnir verða fluttir á Höfn í Hornafirði.
Neyðarkall frá neyðarsendi barst björgunaraðilum í nótt og var fjölmennt lið björgunarsveita kallað út til að halda á jökulinn, nánar tiltekið í Hermannaskarð, sem er á milli Vatnajökuls og Öræfajökuls.
„Það hefur í sjálfu sér ekkert amað neitt að þeim þarna uppi. Það er blautt og kalt, það er kolvitlaust veður,“ sagði Guðbrandur Örn Arnarsson, verkefnastjóri aðgerða hjá Landsbjörg, í samtali við Vísi fyrr í dag.
Vegna veðursins gekk hægt að komast áleiðis til mannanna og snúa hefur þurft við björgunarsveitamönnum á tækjum sem ekki ráða við aðstæður.
Fréttin hefur verið uppfærð.