Skoðun

Á gæða­eftir­litið ekki við um fólk?

Sóldís Birta Reynisdóttir skrifar

Ég naut þeirra forréttinda að fá að alast upp á heimili þar sem afi minn og amma bjuggu einnig. Ég man eftir því að hafa læðst upp í rúm til þeirra og hjúfrað mig að ömmu, stungið tánum á milli fótanna á henni en þá sagði hún ,, Ó þetta eru eins og frostkúlur.”

Þegar ég kom heim úr skólanum var ætíð tekið á móti mér, þegar lengja átti helgarnar með vetrarfrís dögum fór ég í sveitina með þeim og var almennt mikið með þeim á uppvaxtarárum mínum. Ég ólst upp við að borða ekta íslenskan mat og þroskuðust bragðlaukarnir mínir langt á undan jafnöldrum mínum.

Fyrir u.þ.b. 9 árum síðan þurfti amma mín að flytja á heimili sem bauð upp á frekari aðstoð. Hún er með heilabilun en hún hafði glímt við hana í nokkur ár áður en hún fluttist á hjúkrunarheimili. Biðlistinn var langur og ég man að við höfðum öll áhyggjur af því að hún færi sér að voða sökum sjúkdómsins áður en hún kæmist að.

Loksins var röðin komin að henni, og fyrir mikla mildi fékk hún búsetu úrræði í nálægð við gamla heimilið hennar. Afi var ennþá heima hjá okkur en þessar breytingar voru erfiðar fyrir okkur öll en ekki síst hann. Konan hans hafði flutt í burtu og bjó á öðru heimili með öðru veikburða fólki sem þarfnaðist aðstoðar líka.

Afi fór í heimsókn til ömmu á hverjum degi, hann skipulagði daginn sinn þannig að hann kæmi aldrei seinna en kl. 3 til ömmu og áttu þau alltaf notalega stund saman. Foreldrar mínir og við systurnar lögðum einnig í vana okkar að heimsækja hana eins oft og völ var á hverju sinni.

Amma versnaði umtalsvert eftir komuna á nýja heimilið, en hún fór fljótlega í hjólastól og gat illa borðað án aðstoðar. Allar athafnir daglegs lífs þurfti hún aðstoð við og þetta ristir dýpra en nokkurn grunar að horfa upp á manneskju sem maður elskar svo heitt verða jafn veikburða og raun ber vitni.

Nú 9 árum seinna, hefur afa hrakað líka og eru þau hjónakornin loks sameinuð á umræddu hjúkrunarheimili, það er frekar ný tilkomið þar sem afi fékk pláss einungis fyrir nokkrum mánuðum.

Heimilislífið er töluvert breytt og við fjölskyldan erum í sífellu að læra að lifa upp á nýtt. Við söknum öll afa, en skiljum að hans þarfir eru ofar öllu.

Ég hins vegar verð að játa að ég er býsna reið út í það samfélag sem við búum í, nú þekki ég ekki hvernig þetta er í öðrum löndum og varðar í raun ekkert um það. Mér finnst okkur skorta eftirlit með þessum stofnunum. Það er ekkert gæðaeftirlit, vinnueftirlit eða heilbrigðiseftirlit með þessu fólki okkar. Þarna er verið að vinna með fólk, og oft fólk sem getur hvorki tjáð sig né hreyft sig. Vinnuvélar og alls kyns önnur tæki eru undir eftirliti Vinnueftirlits? Allar lyftur landsins fá á ári hverju heimsókn frá Vinnueftirlitinu til viðbótar því eftirliti sem framleiðandi veitir? Samkeppniseftirlitið hefur í nógu að snúast og ekki má gleyma eftirliti með póst-og fjarskiptaþjónustu?

Ég geri mér fulla grein fyrir því að inni á umræddum heimilum starfar fjöldinn allur af dásamlegu fólki sem vinnur einstaklega óeigingjarnt starf, það leggur allt sitt í að veita öllu heimilisfólki bestu aðstoð sem völ er á.

Það er þó afar erfitt að horfa upp á slys sem geta gerst inn á umræddum heimilum og bölva þeim þegjandi og hljóðalaust. Oft á tíðum þegar við fjölskyldan heimsækjum okkar fólk eru þau þyrst og þurfa á klósett. Þau drekka jafnvel hjá okkur fleiri glösin af vatni og það er ekki laust við að maður verði fremur vonsvikin. Ég geri mér fulla grein (enda sjálf unnið á slíkum heimilum) að gamalt fólk biður ekki um að drekka. En það þýðir samt sem áður ekki að þau séu ekki þyrst, þeim skortir hæfnina í að tjá sig og láta vita ef eitthvað er að valda þeim óþægindum.

Slys eins og byltur eru því miður allt of tíðar og tel ég að með ákveðnu eftirliti væri hægt að sporna við því, ekki alfarið en að einhverju leyti. Auðvitað gera slysin ekki boð á undan sér en við eigum að geta sagt okkur að manneskja sem hefur verið í hjólastól í tæp 8 ár þurfi að vera bundin við stólinn. Við eigum líka að geta treyst því að ef við sem ættingjar látum vita að eitthvað eitt sé farsælt fyrir viðkomandi að farið sé eftir því. Við eigum að geta trúað því og treyst að gamla fólkið okkar fái þá bestu aðhlynningu sem völ er á. Við eigum ekki að sætta okkur við að koma að þeim uppi í rúmi, heyrnartækin enn í boxinu, fölsku tennurnar í vatninu og stírurnar í augunum og klukkan að ganga 3 að degi til.

Iðulega er þeim plantað fyrir framan barnaefni tímunum saman vegna þess að starfsfólkið þarf að sinna öðrum á deildinni. Ég hef alltof oft komið að ömmu minni einni að horfa út í tómið, þar sem hún hvorki veit hvar hún er eða í hvaða tilgangi. Það hefur ekkert upp á sig að spyrja heilabilaðan einstakling ,,Viltu nokkuð vera að fara fram í messu?“. Það þarf að drífa þau áfram með vingjarnlegum aðferðum þar sem samskipti og samskonar tómstundir spila gríðarlega stóran sess í lífi heilabilaðra.

Ég vil árétta, enn og aftur, ég er með engu móti að gagnrýna starfsfólkið heldur hefur fjármagn til þessara málaflokka verið á skornum skammti undanfarin ár.

Það minnsta sem ég get gert er að vekja athygli á þessum málstað og opna þannig umræðuna sem vonandi breytist til batnaðar. Það geri ég fyrir ömmu sem gerði allt fyrir mig, það geri ég líka fyrir afa sem hefði vaðið eld og brennistein fyrir mig, en ekki síst fyrir okkur hin sem horfum upp á aldraða fjölskyldumeðlimi verða útundan á Jafnréttisparadísinni Íslandi.

Höfundur er lokaársnemi í grunnnámi á háskólastigi.




Skoðun

Sjá meira


×