Þórólfur vill ekki frekar en fyrri daginn ræða í þaula innihald minnisblaðsins heldur gefa ráðherra kost á að meta tillögurnar fyrst. Hann segir að í stórum dráttum séu tillögurnar í takti við þær afléttingar sem tilkynnt yrði að tæku gildi 24. febrúar, annað skrefið í afléttingaráætlun stjórnvalda.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur boðað að það skref verði tekið tíu dögum fyrr en lagt var upp með. Ríkisstjórnin hittist á fundi í Ráðherrabústaðnum í fyrramálið og má reikna með að Willum kynni afléttingarnar að fundi loknum.
Afléttingaáætlunin gerir ráð fyrir að í þessu öðru skrefi megi tvö hundruð koma saman, fjöldatakmarkanir á sitjandi viðburðum verði eitt þúsund manns. Skemmtistaðir og veitingastaðir megi hafa opið til eitt en síðustu gestir komi inn fyrir miðnætti, svo fátt eitt sé nefnt.
Þá var áætlað að einangrun og sóttkví yrði afnumin í þessu næsta skrefi en nú er ljóst að Þórólfur leggur ekki til afnám einangrunar í þessu skrefi.
Heilbrigðisráðherra sagði á þriðjudag að fullsnemmt væri að tjá sig nákvæmlega um hvaða skref yrðu tekin.
Uppfært klukkan 12:57
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að það væri hans mat að halda ætti í einangrun áfram. Í samtali hans við heilbrigðisstofnarnir hafi komið fram að einangrun sé líklega mikilvægasta verkfærið til að tempra útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi.