Í liðnum janúarmánuði var tekin ákvörðunum að taka þátt í hlutfjáraukningu Wedo en um var að ræða fjárfestingu að fjárhæð 222 milljónir króna. Skeljungur, sem átti 25 prósenta hlut í Wedo, fer með 33 prósent í kjölfar hlutafjáraukningarinnar. Aðrir stórir hluthafar í vefverslanafélaginu eru Norvik, fjárfestingafélag Jóns Helga Guðmundssonar, og Draupnir fjárfestingafélag, sem er félag Jóns Diðriks Jónssonar, eiganda Senu.
Eftir hlutafjáraukninguna kom Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, nýr inn í stjórn Wedo. Hann kom í stað Hjalta Baldurssonar sem hefur tekið við sem framkvæmdastjóri vefverslanafélagsins.
Í ársreikningnum kemur einnig fram að hlutdeild Skeljungs í afkomu Wedo á síðasta ári, á meðan Skeljungur átti 25 prósenta hlut, hafi verið neikvæð um 211 milljónir króna. Gefur það til kynna að Wedo hafi tapað meira en 800 milljónum króna í fyrra. Wedo sendi tilkynningu til fyrirtækjaskrár í janúar þar sem fram kemur að félagið hafi lækkað hlutafé um 1,6 milljarða króna til jöfnunar taps.
Skeljungur hagnaðist um 6,9 milljarða króna í fyrra og hefur hagnaður fyrirtækisins aldrei verið meiri á einu ári. Til stendur að gera félagið að fjárfestingafélagi og breyta nafni þess í SKEL Fjárfestingafélag.
Töluverð umbreyting varð á efnahagi Skeljungs á síðasta ári. Í lok árs gekk Skeljungur frá sölu á hinu færeyska Magni til Sp/f Orkufélagsins fyrir 12,2 milljarða króna en skuldbatt sig jafnframt til að endurfjárfesta 2,8 milljörðum króna í Orkufélaginu gegn því að eignast ríflega 48 prósenta hlut. Þá skrifaði Skeljungur undir viljayfirlýsingu um sölu fasteigna fyrir 8,8 milljarða króna til fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns.