Hún mun því etja kappi við þær Líf Magneudóttur, eina borgarfulltrúa VG, og Elínu Oddnýju Sigurðardóttur, varaborgarfulltrúa flokksins, sem sækjast einnig eftir að leiða VG í kosningunum.
Þetta staðfestir Elín Björk í samtali við fréttastofu. „Ég ætla að láta reyna á þetta, já. Ég hef fengið góða hvatningu til þess víðs vegar að og langar núna að láta að mér kveða í borgarmálunum,“ segir hún.
Elín Björk hefur starfað hjá Veðurstofunni í rúma tvo áratugi og segir að eðlilega eigi loftslags- og náttúruverndarmál hug hennar allan.
„En ég er ekki síður áfram um þessi helstu mál í borginni; húsnæðismál, skipulags- og skólamálin og auðvitað um velferðarstefnuna sem er rekin hér,“ segir hún.
Elín Björk hefur verið afar virk innan Vinstri grænna undanfarin ár. Nú situr hún í stjórn flokksins, er formaður Reykjavíkurfélagsins, sem er stærsta aðildarfélag flokksins, og þá sat hún í áttunda sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar síðasta haust.
Opin fyrir því að starfa utan núverandi meirihluta
Hún segir aðspurð að VG verði að bæta við sig fylgi í borginni en flokkurinn hefur nú aðeins einn borgarfulltrúa þar.
Spurð hvort henni þóknist að starfa áfram í núverandi meirihluta með Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum segir hún:
„Ég held það verði bara að koma í ljós hvað kemur upp úr kjörkössunum. Það eru kannski háværar raddir með og á móti þessum meirihluta en ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvað borgarbúar vilja. Það verður auðvitað að koma í ljós þegar talið er upp úr kjörkössunum.“