Innlent

Fjórir handteknir vegna líkamsárásar og eldur slökktur í strætó

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Smá olía lak úr strætóbifreiðinni, sem slökkvilið þreif upp.
Smá olía lak úr strætóbifreiðinni, sem slökkvilið þreif upp. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði bifreið í miðborginni í nótt og handtók alla fjóra sem voru í bílnum vegna gruns um líkamsárás. Þá er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna auk þess sem hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu.

Allir fjórir voru vistaðir í fangageymslum vegna rannsóknar málsins en sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á Landspítala, þar sem hann fékk aðhlynningu.

Lögreglu barst einnig tilkynning um að ekið hefði verið á gangandi vegfaranda í miðborginni. Sá var með rispu á enni og eymsli í olnboga. Var hann fluttur á Landspítala.

Þá var tilkynnt um þjófnað í verslun í Seljahverfi en þar var maður stöðvaður á leið út með varning að verðmæti 19 þúsund krónur. 

Einnig var tilkynnt um eld í vélarrými í strætó í Kópavogi en eldurinn reyndist minniháttar og tókst vegfaranda að slökkva hann. Engu að síður þurfti að draga vagninn af vettvangi með dráttarbifreið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×