Innlent

Fór úr axlarlið í líkamsárás

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nokkuð var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nokkuð var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás á fyrsta tímanum í nótt í miðbæ Reykjavíkur. Tilkynnt var um mann sem hrinti stúlku þannig að hún féll aftur fyrir sig og mann sem kýldur var í andlitið.

Þegar lögregla kom á vettvang var árásarmaðurinn farinn en afskipti voru höfð af honum skömmu síðar og frásögn hann stemmdi ekki við það sem aðrir höfðu sagt. Sjálfur var hann með áverka og mögulega farinn úr axlarlið. Hann var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku og er málið til rannsóknar. 

Þetta segir í dagbók lögreglu í morgun. Tveir ölvaðir menn voru handteknir fyrir brot á lögreglusamþykkt í miðbænum rétt eftir miðnætti en þeir höfðu verið að slást og veitast að vegfarendum. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslum vegna ástands. 

Þá var maður handtekinn í Laugardal grunaður um ölvun, vörslu fíkniefna og fleira. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Þá voru höfð afskipti af manni í á Læknartorgi en hann hafði kastað af sér vatni á torginu. Hann játaði brotið.

Þá var maður handtekinn í Múlunum grunaður um innbrot og þjófnað í bifreið. Maðurinn var vistaður í fagnageymslu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×