Þetta segja tíu stjórnendur í ferðaþjónustu sem sendu yfirlýsingu frá sér í dag. Meðal þeirra eru stjórnendur hjá Íslandshótelum, Ferðaskrifstpfunni Atlantik, Flugfélaginu Erni, Ferðaskrifstofu Íslands og Gray Line.
Fram kemur í yfirlýsingunni að viðbúið sé að víða verði þjónusta við ferðamenn, gisting, leiðsögn, veitingar og fleira, ekki til staðar þar sem starfsfólk vanti. Fyrirtæki geti mörg ekki haldið starfsfólki, hvað þá ráðið nýtt fólk til að undirbúa ferðasumarið eða markaðssetja þjónustu sína.
„Óvissan og sveiflurnar í ferðaþjónustunni hafa gert það að verkum að fjöldinn allur af reyndu og öflugu starfsfólki er hætt fyrir fullt og allt. Öðrum hefur verið hægt að halda, þrátt fyrir sveiflurnar, með fjölbreyttum úrræðum sem ríkissjóður hefur kostar,“ segir í yfirlýsingunni.
Nú hafi slíkir styrkir runnið sitt skeið.
„Janúar má að heita dauður tekjulega séð í ferðaþjónustunni, með 65-70% tekjufalli. Útlitið er ekki bjartara a.m.k. næstu tvo mánuði. Ekkert fyrirtæki getur staðið undir fastakostnaði og launakostnaði ema hafa tekjur.“
Áætlaðir viðspyrnustyrkir ekki nóg
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær að hann hefði mælt fyrir áframhaldandi styrkjum og ráðist yrði í viðspyrnuátak. Stjórnendurnir segja það ekki nóg.
„Þeir gagnast samt aðeins minnstu fyrirtækjunum enda eru þeir að hámarki 2,5 milljónir miðað við fimm starfsmenn. Viðspyrnustyrkir gera lítið fyrir millistór og stór fyrirtæki í ferðaþjónustu,“ segir í yfirlýsingunni.
Það versta sem komið geti fyrir í aðdraganda ferðasumars sé að ferðaþjónustufyrirtæki fari að segja upp fólki enn einu sinni í þeirri von að fólkið fáist aftur til starfa þegar birti til.
„Hætt er við því að tekjur þjóðarbúsins af komu ferðamanna verði minni en ella. Það er því til mikils að vinna að tryggja að ferðaþjónustan geti mætt þörfum ferðafólksins með góðri þjónustu og tryggt áframhaldandi gott orðspor fyrir Ísland sem áfangastað.“
Vilja framlengja ráðningarstyrkina
Þau segja að besta leiðin til að tryggja að ferðaþjónustufyritækin þrauki fram á vor sé að framlengja ráðningarstyrkina en þó ekki með sama fyrirkomulagi og áður, það er að fyrirtæki þurfi að segja fólki upp og ráða nýtt af atvinnuleysisskrá.
„Frekar að úrræðið verði framlengt í 3-6 mánuði fyrir það starfsfólk sem hefur verið í vinnu á grundvelli þess. Auðvelt er að koma í veg fyrir misnotkun með því að tengja það tekjufalli árið 2021 miðað við 2019.“
„Það væri vægast sagt kaldhæðnislegt að láta ferðaþjónustuna blæða út skömmu áður en hjólin fara að snúast á nýjan leik.“