Arnar leitar að aðstoðarmanni eftir að Eiður Smári Guðjohnsen hætti í síðasta mánuði. Davíð Snorri Jónasson og Ólafur Ingi Skúlason, þjálfarar U-21 og U-19 ára landsliða karla, verða Arnari til aðstoðar í vináttulandsleikjunum gegn Úganda og Suður-Kóreu í þessari viku. Í samtali við Vísi í síðustu viku sagði Arnar að gengið yrði frá ráðningu á nýjum aðstoðarþjálfara skömmu eftir leikina.
Á blaðamannafundi í dag var Arnar spurður út í stöðuna á ráðningarferli nýs aðstoðarþjálfara.
„Þrír efstu á blaði eru Íslendingar. Mér finnst best fyrir íslenska landsliðið og KSÍ að vera með íslenskan aðstoðarþjálfara, helst aðila sem er búsettur á Íslandi. Ég er ekki hundrað prósent af tímanum á Íslandi þó ég sé mikið þar. Mér og mínum yfirmönnum hefur fundist réttast að fara þá leið. Strax eftir leikina förum við í það að reyna að klára þau mál,“ sagði Arnar.
Undanfarinn áratug eða svo hefur aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins verið í fullu starfi og engin breyting verður þar á núna að sögn Arnars.
Hann hefur nokkuð fastmótaðar hugmyndir um hvernig mann hann vill fá í starfið.
„Það sem ég vil er að vinna með fólki sem ég get treyst. Mann sem þekkir ekki bara íslenska knattspyrnu heldur einnig umhverfið, hefur reynslu í landsliðsumhverfi. Ef það er aðili með mikla reynslu og eldri gæti það verið plús en aldurinn er samt ekki svo mikilvægur,“ sagði Arnar.
Ísland mætir Úganda á miðvikudaginn og Suður-Kóreu á laugardaginn. Leikirnir verða báðir sýndir beint á Stöð 2 Sport.