Ráðherra kallaði eftir tilnefningum í starfshópinn frá Matvælastofnun og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Iðunn Guðjónsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er formaður hópsins og er skipuð án tilnefningar. Frá þessu er greint í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Auk Iðunnar sitja Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun fyrir hönd stofnunarinnar og Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands fyrir Siðfræðistofnun í starfshópnum. Honum er ætlað að skila ráðherra tillögum sínum fyrir 1. júní.
Rannsaka slæma meðferð blóðtökuhryssa
Matvælastofnun hefur til rannsóknar meint alvarleg brot á velferð blóðtökuhryssa sem sýnd voru í heimildarmynd sem Alþjóðlegu dýraverndunarsamtökin TSB Tierschutzbund Zurich og AWF Animal Welfare Foundation birtu í nóvember. Verkefni starfshópsins er aðskilið rannsókn Matvælastofnunar.
Að sögn ráðuneytisins hefur Svandís Svavarsdóttir falið starfshópnum að funda með hagaðilum. Auk þess mun almenningi gefast kostur á að tjá sig um störf og tillögur hópsins á Samráðsgátt stjórnvalda þegar þær liggja fyrir.
Blóðmerarhald hefur lengi verið við lýði á Íslandi, en blóðið er tekið úr fylfullum merum og notað til að auka frjósemi svína til manneldis með hormóninu PSMG.