Björg Magnúsdóttir sjónvarpskona er vinkonan umrædda. Hún bað Birgittu um að búa til myndbandskveðju sem sýna átti í brúðkaupinu, en Birgitta og Vignir vildu hins vegar „miklu frekar gefa þeim alvöru lifandi gjöf og mæta á staðinn, og syngja lagið sem þær trúlofuðu sig við,“ eins og Birgitta sjálf orðaði það.
Brúðkaupið var haldið í heimahúsi og þær ákváðu að hafa það lítið, enda samkomutakmarkanir allsráðandi. Birgitta og Vignir sungu því fyrir utan húsið sem gerði atvikið heldur betur eftirminnilegt. Þá gaf Björg, vinkonan góða, þær stöllur saman en hún er athafnastjóri hjá Siðmennt. Blaðamaður náði tali af Sonju fyrr í dag sem var að vonum glöð með gærdaginn.
„Við erum báðar svona forfallnir Írafárs-aðdáendur og vorum búnar að bóka Birgittu Haukdal til að syngja í brúðkaupinu okkar sem átti að vera næsta sumar, en síðan erum við óléttar og eigum von í maí þannig að við erum að fresta brúðkaupinu en vildum samt gifta okkur núna,“ segir Sonja og bætir við að þetta hafi verið mjög óvænt ánægja: „Þetta var alveg hápunkturinn bara.“

Eins og fyrr segir eru þær Sonja og Kolbrún miklir aðdáendur hljómsveitarinnar og lagið „Aldrei mun ég“ er í uppáhaldi.
„Ég held að Birgitta og Vignir viti alveg hverjar við erum af því við erum alveg vandræðalega mikið alltaf alls staðar og höldum mikið upp á þau,“ segir Sonja og hlær.
„Hún tók sem sagt uppáhalds lagið okkar sem ég við einmitt trúlofuðum okkur yfir. Yfir uppáhalds laginu bað ég hennar [Kolbrúnar] og þau tóku það lag í gær þannig að það var mjög viðeigandi. Þetta var bara draumur sko,“ segir Sonja glöð: „Við erum enn þá bara að melta allt sko, við vorum svo ótrúlega hamingjusamar með daginn í gær.“