Sport

Mætir aftur í Ally Pally eftir maraþonvaktir með slökkviliðinu um jólin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alan Soutar hefur slegið í gegn á sínu fyrsta heimsmeistaramóti í pílukasti.
Alan Soutar hefur slegið í gegn á sínu fyrsta heimsmeistaramóti í pílukasti. getty/Luke Walker

Nokkrum klukkutímum eftir að hafa slegið Mensur Suljovic út á heimsmeistaramótinu í pílukasti var Alan Soutar mættur í hina vinnuna sína, hjá slökkviliðinu.

Hinn skoski Soutar hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðuna á sínu fyrsta heimsmeistaramóti. Hann sigraði Brasilíumanninn Diego Portela, 3-2, í 1. umferð og í 2. umferð vann hann óvæntan sigur á Austurríkismanninum Mensur Suljovic á Þorláksmessu. Soutar tapaði fyrstu tveimur settunum en gafst ekki upp og vann leikinn, 3-2. Hann tryggði sér sigurinn með eftirminnilegri 144 úttekt.

Soutar gat ekki fagnað sigrinum lengi því hann þurfti að mæta í vinnuna. Og hann tók engar smá vaktir. Á aðfangadag vann hann fjórtán klukkutíma og sextán klukkutíma á jóladag.

Soutar, sem er 43 ára, hefur starfað sem slökkviliðsmaður í sautján ár. Meðfram því finnur hann tíma til að keppa í pílukasti. Og ef það er ekki nóg þá þjálfa Soutar og eiginkona hans blindrahunda.

„Þetta snýst bara um að finna jafnvægi þarna á milli. Ef ég þarf meira frí erum við með marga sem geta hlaupið í skarðið á stöðinni og skipt við mig,“ sagði Soutar við Sky Sports.

„Ég reyni að halda báðum boltunum á lofti. En það að ég sé kominn í 3. umferð á HM gæti breytt lífi mínu til frambúðar.“

Hann á að mæta aftur til vinnu á morgun. Það gæti þó tafist eitthvað ef Soutar vinnur Portúgalann José De Sousa í fyrsta leik dagsins á HM. 

Líkurnar eru ekki með Soutar í liði en De Sousa er í 7. sæti heimslistans. En Skotinn hefur áður komið á óvart á HM og mætir fullur sjálfstrausts til leiks.

„Jose er númer sjö á heimslistanum svo þetta verður erfitt verkefni fyrir mig. En ég er kominn upp í 54. sætið og það er ekkert sem stoppar mig í því að koma aftur á óvart. Ekkert,“ sagði Soutar.

Viðureign hans og De Sousas hefst klukkan 12:40. Sýnt er frá heimsmeistaramótinu í pílukasti á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×