Sport

Heimsmeistararnir frá 2018 og 2020 komir í 16-manna úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Peter Wright mætir Ryan Searle í 16-manna úrslitum eftir sigur kvöldsins.
Peter Wright mætir Ryan Searle í 16-manna úrslitum eftir sigur kvöldsins. Luke Walker/Getty Images

Rob Cross og Peter Wright tryggðu sér báðir sæti í 16-manna úrslitum HM í pílu í kvöld. Cross þurfti öll sjö settin til að tryggja sér sigur, en Wright hrökk í gang og tók öll völd eftir að hafa tapað fyrstu tveim.

Rob Cross, sem varð heimsmeistari árið 2018 og situr í 11. sæti heimslistans, mætti Daryl Gurney, sem situr í 22. sæti.

Cross byrjaði betur og vann fyrsta settið 3-2, og niðurstaðan varð sú sama í öðru setti. Gurney ákvað að taka þátt í þemanu og vann þriðja settið 3-2, áður en Cross kom sér aftur í tveggja setta forystu með sigri í fjórða setti sem fór einmitt 3-2.

Cross þurfti því aðeins að vinna eitt sett í viðbót til að tryggja sér sæti í 16-manna úrslitum, en Gurney hafði ekki sagt sitt síðasta og vann næstu tvö sett. Því þurfti sjöunda settið til að útkljá viðureignina þar sem að Cross hafði betur og er því kominn í 16-manna úrslit þar sem hann mætir annað hvort Gary Anderson eða Ian White.

Í seinni viðureign kvöldsins mættust þeir Peter Wright, heimsmeistarinn frá 2020 og sá næst besti í heiminum samkvæmt heimslista PDC, og Ástralinn Damon Heta sem situr í 31. sæti heimslistans.

Heta fór vel af stað og vann fyrstu tvö settin, 3-1 og 3-2. Þá vaknaði Peter Wright til lífsins og gjörsamlega keyrði yfir andstæðing sinn.

Wright vann næstu fjögur sett 3-2, 3-1, 3-0 og 3-0 og tryggði sér þar með sæti í 16-manna úrslitum þar sem hann mætir þungarokkaranum sem sér illa, Ryan Searle.

Michael van Gerwen og Chris Dobey áttu að mætast í lokaviðureign kvöldins, en sá fyrrnefndi greindist með Covid-19 í dag og þurfti því að draga sig úr leik.

HM í pílukasti er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. HM í pílukasti er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×