Sport

Handboltamarkvörðurinn sló fimmta sætið úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Florian Hempel gerði sér lítið fyrir og sló Belgann Dimitri Van den Bergh úr leik í 64-manna úrslitum HM í pílukasti.
Florian Hempel gerði sér lítið fyrir og sló Belgann Dimitri Van den Bergh úr leik í 64-manna úrslitum HM í pílukasti.

Heimsmeistaramótið í pílukasti bauð upp á óvænt úrslit í kvöld þegar fyrrverandi handboltamarkvörðurinn Florian Hempel sló Belgann Dimitri Van den Bergh úr leik í 64-manna úrslitum. Hempel byrjaði í pílukasti fyrir fjórum árum, en Van den Bergh er í fimmta sæti heimslista PDC.

Hempel sigraði fyrsta settið 3-2, en Van den Bergh svaraði með 3-0 sigri í öðru setti og þá bjuggust líklega flestir við því að Belginn myndi keyra yfir andstæðing sinn.

Sú varð alls ekki raunin því Hempel spilaði frábærlega og sigraði þriðja sett 3-1. Hann bætti svo um betur í fjórða setti og vann alla þrjá leggina og þar með viðureignina samanlagt 3-1.

Fyrr í kvöld unnu Vincent van der Voort og Michael Smith örugga 3-0 sigra í sínum viðureignum gegn Adam Hunt og Ron Meulenkamp.

Lokaviðureign kvöldsins bauð svo einnig upp á óvænt úrslit þar sem að Ástralinn Raymond Smith vann öruggan 3-0 sigur gegn suður-afríska stríðsmanninum Devon Petersen. 

Petersen er í 28. sæti heimslistans, en hann mun líklega ekki sofa vel í flugvélinni á leiðinni heim þar sem að spilamennska hans í kvöld var langt frá því að vera hans besta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×