Breytt reglugerð um skoðun ökutækja kemur til framkvæmda í tveimur hlutum á nýju ári. Fyrri breytingar, sem taka gildi 1. janúar 2022, kveða meðal annars á um hækkað vanrækslugjald þegar fer úr fimmtán þúsund krónum í tuttugu þúsund en hækkunin er umtalsvert meiri fyrir stærri ökutæki á borð við vörubíla og rútur þegar hún fer úr fimmtán þúsund krónum í fjörutíu þúsund krónur.
„Helstu breytingarnar sem almenningur mun finna fyrir í byrjun næsta árs eru þessi sumarökutæki, þ.e.a.s ferðavagnar, hjólhýsi, tjaldvagnar, fornökutæki og fleira. Þau fá nýjan skoðunarmánuð; núna þarf að skoða þau í maí en það verður þannig að það þarf að ganga frá skoðuninni í upphafi tímabils í staðinn fyrir lok tímabils,” segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu. Hann tekur fram að breytingarnar sem taka gildi í byrjun árs megi finna á vef Samgöngustofu.
Síðari breytingin tekur gildi í maí en hún felur í sér talsvert hertari reglur þegar mun ríkari kröfur verða gerðar til ökumanna og skoðanastöðva, en akstursbann verður sett á ef til dæmis olía eða eldsneyti lekur eða hemlaljós eru biluð, en áður var það endurskoðun - svo dæmi séu tekin.
Gunnar segir að verið sé að leggja lokahönd á skoðanahandbók sem allar skoðunarstöðvar fái á næstu dögum, og að þær hafi því fjóra mánuði til þess að kynna sér hana.
„Fólk má fara að setja sig í stellingar því það þarf að fylgjast betur með bílnum áður en hann fer í skoðun þannig að fólk sé með það í huga að það lendi ekki í akstursbanni.”
Búast megi við að talsverður fjöldi fái á sig akstursbann. „Það má búast við því já, ef fólk lærir ekki svolítið á þetta og sér að það er eitthvað ekki í lagi áður en það fer í skoðun þá má það alveg búast við því, að öllu óbreyttu, að fleiri bílar fái stimpilinn notkun bönnuð og þurfa þá að fara á verkstæði til að koma honum í gegnum skoðun,” segir Gunnar og bætir við að nýjar reglur verði birtar á vef stofnunarinnar á næsta ári.