Örvunarbólusetningar eru í fullum gangi, þegar hafa 136 þúsund fengið þriðja skammtinn, og ráðgert er að sprauta rúmlega 30.000 Íslendinga enn í þessum mánuði. Áfram verður haldið á fyrstu þremur mánuðum ársins en þá ætti verulegur hluti landsmanna að vera kominn með skammtinn.
„Ég held að það sé það mikilvægasta sem við getum gert til að halda samfélaginu gangandi og lágmarka veikindi að það sé góð þátttaka í þessum bólusetningum sem nú eru í fullum gangi. Þetta er í raun og veru langöflugasta forvörn sem við höfum, þannig að ég vil bara hvetja alla til að taka þátt í því,“ sagði Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum og yfirlæknir á Landspítala, í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Vafi hefur leikið á um virkni bóluefna gegn omíkron-afbrigðinu en myndin er aðeins farin að skýrast.
„Það sem hefur komið fram er jákvætt að því leytinu til að þar er nokkurn veginn staðfest að mótefnavernd sem hlýst af þremur skömmtum virðist vera fullnægjandi eða ætti að vera fullnægjandi til að vernda gegn alvarlegum sjúkdómi sýkist maður af omíkron-afbrigðinu,“ segir Magnús.
Það gætir sums staðar gremju hjá þeim sem segja, ja, þið sögðuð að tveir skammtar væru nóg og fullnægjandi og svo breytið þið því og bætið við skammti. Hvað er við því að segja?
„Við því er það einfaldlega að segja að við erum að fást við nýtt og áður óþekkt vandamál og það er í sjálfu sér ekki hægt að gefa nein loforð um það hvernig framtíðin verður.“
Covid-sjúklingur lést á Landspítala í gær og tveir eru á öndunarvél. 145 greindust með veiruna innanlands í gær og minna en helmingur var í sóttkví. Og á það hefur verið bent að þeir sem greinast nú eiga á hættu að vera í einangrun á jólunum, ef sú varir í tvær vikur vegna viðvarandi einkenna.