Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV en búið er að skrifa undir dómsátt í málinu. Konan, sem er ríflega fimmtug amma, fékk engar athugasemdir í leghálsskimun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins árið 2018 og greindist tveimur árum síðar með ólæknandi leghálskrabbamein. Þá var of seint að senda konuna í aðgerð. Við endurskoðun á sýninu frá 2018 kom í ljós að það hafi verið ranglega greint.
Fram kom í apríl að Embætti landlæknis hafi komist að þeirri niðurstöðu að bæði mannleg og kerfislæg mistök hafi verið gerð í máli konunnar. Mannleg mistök hafi orðið við greiningu sýnisins en ákveðinn þátt innra gæðaeftirlits hefði verið hægt að nýta betur.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður konunnar, sagði þá í samtali við fréttastofu að úttektin staðfesti enn frekar að verkferlar og eftirlit með starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins hafi ekki verið í lagi.
Vonar að niðurstaðan verði fordæmisgefandi
Upphaflega var greint frá máli konunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í ágúst í fyrra. Í kjölfar málsins voru rétt tæplega fimm þúsund sýni endurskoðuð hjá Krabbameinsfélaginu og 209 konur kallaðar aftur til frekari skoðunar.
Nokkrar konur sem fengu ranga niðurstöðu í leghálsskimun hjá Krabbameinsfélaginu reyndust vera með það alvarlegar frumubreytingar að þeim var ráðlagt að fara í keiluskurð.
Sævar segir í samtali við RÚV að dómsáttin í máli konunnar sé ásættanleg. Vonar hann að hún verði fordæmisgefandi fyrir mál annarra kvenna sem fengu ranga niðurstöðu úr krabbameinsskimunum hjá Leitarstöðinni.
Sævar upplýsir ekki í samtali við RÚV hver bótafjárhæðin sé nema að hún hlaupi á tugum milljónum króna.