Jólalög búa oftar en ekki yfir mikilli gleði og eru órjúfanlegur hluti af desember mánuði. Í janúar eru tónlistarunnendur vanalega búnir að fá nóg í bili og fá þá margra mánaða jólalaga pásu. Að tæpu ári liðnu er því auðvelt að taka aftur á móti jólalögunum með opnum örmum.
Fjölbreytileiki jólalaganna
Það getur verið áhugavert að grúska í alls kyns jólalögum og sjá þá ótrúlegu fjölbreytni sem þau búa yfir. Sum hafa kannski ekki náð almennilegu flugi í tónlistarheiminum en það þýðir ekki að það sé ekki vel þess virði að prófa að hlusta.
„Elektrónísk“ jólagleði
Fyrsti desember listinn var fluttur í dag og jólalag vikunnar er að finna á plötunni Kaskade Christmas sem plötusnúðurinn Kaskade gaf út árið 2017. Á þessari óhefðbundnu jólaplötu má finna hin ýmsu klassísku jólalög á borð við Santa Baby og Deck The Halls í nýstárlegum búningi með elektrónísku dans ívafi.
Jólalag vikunnar heitir Christmas is Here og er fyrsta lagið á þessari jólalaga plötu Kaskade. Upprunaleg útgáfa lagsins heitir Carol of The Bells og er ekta jólakórs lag sem flestir ættu að kannast við.
Það er áhugavert að byrja á að hlusta á upprunalegu útgáfuna og sjá svo hvernig lagið verður að einhverju glænýju í búning Kaskade.
Þetta er grípandi og taktfast lag sem verður jólalegt á mjög einstakan máta hjá Kaskade. Jólin geta svo sannarlega verið groovy!