Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs með 169 milljarða halla í morgun. Engu að síður gætir bjartsýni hjá ráðherranum enda bendi allt til þess að hagvöxtur aukist meira en áður var spáð og hraðar gangi að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Það væri ásættanlegt að reka ríkissjóð með halla í nokkur ár í viðbót. Að fimm árum liðnum verði skuldastaðan engu að síður heilbrigð og ríkissjóður þoli annað efnahagsáfall.

„Við höfum getu til að viðhalda opinberri þjónustu án þess að hækka skatta. Án þess að fara í niðurskurð. Heldur ætlum að halda úti gæða opinberri þjónustu á næstu árum á grundvelli þess styrks sem við höfum í ríkisfjármálunum,“ segir Bjarni.

Áfram verði þörf á aðgerðum vegna faraldursins upp á 50 milljarða á næsta ári sem í heild verði þá komnar upp í 260 milljarða frá upphafi faraldurs. Atvinnuleysi hafi minnkað hratt og fjöldi nýrra starfa orðið til. Enn standi gistiþjónusta þó illa og því verði gistináttagjald ekki innheimt á næsta og þar næsta ári.

„Við höfum getu til að koma með innspýtingu í heilbrigðismál. Við ætlum að standa með barnafjölskyldum. Það kemur viðbótarskattalækkun í gegnum persónuafsláttinn á næsta ári. Við stöndum með öryrkjum með sérstakri hækkun til þeirra,“ segir fjármálaráðherra.
Sömuleiðis verði frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna tvöfaldað úr 100 í 200 þúsund krónur á mánuði. Þá vilji stjórnvöld taka upp viðræður við samtök eldri borgara og öryrkja um breytingar á greiðslum almannatrygginga.
Það tókst ekki að semja við öryrkja á síðasta kjörtímabili vegna ótta þeirra við hugmyndir um starfsgetumat. Bjarni segir ekki hægt að bjóða fólki upp á einhvers konar veðmál með starfsgetu sína.
„Heldur verði kerfið að vera hvetjandi. Það verði að vera endurkomuleið inn í réttindin ef starfsgetan er ekki til staðar eða hún breytist að nýju,“ segir Bjarni.
Almennt væru bjartir og spennandi tímar framundan með auknum framlögum í nýsköpun og grænar atvinnugreinar. Allir verði hins vegar að leggjast á árar með Seðlabankanum í að koma verðbólgu og vöxtum niður.

„Ég kalla já til aðila vinnumarkaðarins um að við tökum öll höndum saman um að gera það sem við getum til að halda aftur af verðbólgu og tryggja heimilum og fyrirtækjum í landinu hóflegt vaxtastig. Þannig að við getum haldið vextinum áfram,“ segir Bjarni Benediktsson.