Innlent

Jóhann beið lægri hlut en sleppur við lög­fræði­kostnað í Saknaðar­máli

Atli Ísleifsson skrifar
Jóhann Helgason hefur staðið í málaferlum vegna líkinda Saknaðar og You Raise Me Up síðustu ár.
Jóhann Helgason hefur staðið í málaferlum vegna líkinda Saknaðar og You Raise Me Up síðustu ár. Vísir/Rakel Ósk

Tónlistarmaðurinn Jóhann Helgason beið lægri hlut í höfundarréttarmáli sínu gegn norska tónlistarmanninum Rolf Løvland og bandarísku tónlistarrisunum Universal, Warner og Peer Music. Hann mun þó ekki þurfa að standa straum af lögfræðikostnaði stefnda vegna málsóknarinnar.

Þetta kemur fram í dómi áfrýjunardómstóls í Los Angeles sem féll í gær og Viðskiptablaðið greinir frá.

Málflutningur fór fram í Los Angeles fyrr í mánuðinum, en Jóhann stefndi á sínum tíma Løvland og tónlistarrisunum vegna líkinda Saknaðar, lags Jóhanns, og You Raise Me Up, lags Norðmannsins Rolf Løvland sem naut gríðarlegra vinsælda í flutningi Josh Groban, þar sem Jóhann vildi meina að um lagastuld væri að ræða.

Málinu var vísað frá dómstigi í Los Angeles á síðasta ári en bæði Jóhann og andstæðingar hans áfrýjuðu málinu til áfrýjunardómstóls.

Í dómnum kemur fram að Jóhanni hafi ekki tekist að hrekja sérfræðigreiningu Dr. Lawrence Ferrara, vitnis stefnda í málinu, með sannfærandi hætti, en Ferrera taldi ekki mikil líkindi vera með lögunum tveimur. .

Dómurinn taldi hins vegar að Jóhann ætti ekki að greiða lögmannskostnað varnaraðila í málinu – rúmar 40 milljónir króna – þar sem málarekstur Jóhanns hafi ekki verið metin óréttmæt.

Lagið Söknuður kom út árið 1977 en You Raise Me Up árið 2001.


Tengdar fréttir

Enn glímir Jóhann við tónlistarrisana í dómsal

Munnlegur málflutningur í máli Jóhanns Helgasonar gegn tónlistarrisunum Warner og Universal hófst í Los Angeles í dag. Jóhann er vongóður um að í þetta skiptið hafi hann betur.

Máli Jóhanns Helga­sonar vísað frá

Máli tónlistarmannsins Jóhanns Helgasonar gegn tónlistarrisunum Warner og Universal var vísað frá dómi í Los Angeles í Bandaríkjunum á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×