Ráðuneytin deilast milli flokkanna á þann veg að Sjálfstæðisflokkurinn fær fimm, Framsóknarflokkurinn fær fjögur og VG fær þrjú.
Fyrsti ríkisráðsfundur stjórnarinnar hófst á Bessastöðum í dag en fyrst kom gamla ríkisstjórnin saman þar sem Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og greindi forseta jafnframt frá því að samkomulag hefði tekist um myndun nýrrar stjórnar sömu flokka..

Loftslagsmál, heilbrigðismál og tæknibreytingar eru einna fyrirferðamestu málaflokkarnir í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sem kynntur var í dag. Miklum úrbótum er lofað í heilbrigðismálum þar sem skipa faglega stjórn yfir Landspítalann að norrænni fyrirmynd.
Í sáttmálanum má svo finna gömul markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi en einnig metnaðarfull markmið um að auka traust almennings á mikilvægi tjáningarfrelsis.
Hér að neðan má sjá hvernig ráðuneytin deilast milli nýrrar ríkisstjórnar.
Sjálfstæðisflokkur:
Bjarni Benediktsson er fjármálaráðherra.
Jón Gunnarsson er dómsmálaráðherra en Guðrún Hafsteinsdóttir mun taka við af honum eftir átján mánuði að hámarki.
Guðlaugur Þór Þórðarson er umhverfis- og lofslagsmálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er utanríkisráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er nýsköpunar-, iðnaðar- og háskólaráðherra.
Framsóknarflokkur:
Sigurður Ingi Jóhannsson er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Willum Þór Þórsson er heilbrigðisráðherra.
Ásmundur Einar Daðason er skólamála- og barnaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Vinstri hreyfingin – grænt framboð:
Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir er matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra.