Körfubolti

Rússar með góðan sigur gegn Ítölum í riðli Íslands

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rússar og Ítalir mættust í fyrsta leik H-riðils okkar Íslendinga í undankeppni HM 2023 fyrr í dag.
Rússar og Ítalir mættust í fyrsta leik H-riðils okkar Íslendinga í undankeppni HM 2023 fyrr í dag. Mike Kireev/NurPhoto via Getty Images

Rússar unnu góðan 14 stiga sigur gegn Ítölum er liðin mættust í fyrsta leik H-riðils okkar Íslendinga í undankeppni HM 2023 í körfubolta, 92-78.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og bæði lið áttu erfitt með að koma mikið af stigum á töfluna. Liðin skiptust á að hafa forystuna, en að fyrsta leikhluta loknum höfðu Rússar eins stigs forystu, 15-14.

Rússarnir höfðu svo frumkvæðið lengst af í öðrum leikhluta og náðu mest átta stiga forskoti í stöðunni 35-27. Þá tóku Ítalir gott áhlaup og skoruðu tíu stig gegn tveimur stigum Rússa undir lok hálfleiksins, og staðan var því jöfn, 37-37, þegar gengið var til búningsherbergja.

Rússneska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og skoraði fyrstu tíu stig þriðja leikhluta. Ítalir unnu sig þó hægt og rólega aftur inn í leikinn og þegar komið var að lokaleikhlutanum var munurinn fimm stig, staðan 64-59, Rússum í vil.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi fjórða leikhluta, en þegar um fimm mínútur voru til leiksloka tóku Rússar öll völd. Þeir skoruðu tíu stig í röð og komust þar með 15 stigum yfir. Eftir það var ekki aftur snúið fyrir Ítali, og Rússar unnu góðan 14 stiga sigur, 92-78.

Anton Astapkovich var stigahæstur í liði Rússa með 21 stig, en hann tók einnig fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Stefano Tonut var atkvæðamestur í ítalska liðinu með 20 stig, þrjú fráköst og sex stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×