Körfubolti

Njarðvíkingar ætla að nýta sér hraðprófin til að fá fimm hundruð á heimaleiki sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur verið gaman hjá Njarðvíkingum þetta körfuboltahaustið. Þeir vilja halda stemmningunni áfram i Ljónagryfjunni.
Það hefur verið gaman hjá Njarðvíkingum þetta körfuboltahaustið. Þeir vilja halda stemmningunni áfram i Ljónagryfjunni. Vísir/Hulda Margrét

Mörg íþróttafélög á Íslandi hafa ákveðið að fara ekki hraðprófsleiðina á meðan harðari sóttvarnarreglur eru í gildi hér á landi en Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur er þó ekki í þeim hópi.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur hefur ákveðið að fram til 8. desember verði gestir og stuðningsmenn á heimaleikjum Njarðvíkur að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi.

Það er ósk stjórnar að fleiri en hundrað vallargestir í tveimur fimmtíu manna hólfum eigi kost á því að sjá lið félagsins leika í Subwaydeildunum og gildir þetta því bæði fyrir karla- og kvennalið félagsins.

Konurnar í Njarðvík eru á toppnum í Subway-deild kvenna með sex sigra í sjö leikjum en karlarnir unnu bikarmeistaratitilinn í haust og svo þrjá fyrstu deildarleiki sína. Karlalið Njarðvíkur fær Breiðablik í heimsókn í kvöld og reynir þar að enda þriggja leikja taprhrinu sína.

Það hefur verið mikill körfuboltaáhugi í Njarðvík á þessu tímabili eftir flottan árangur beggja meistaraflokksliðanna og því vilja Njarðvíkingar gefa fleiri tækifæri á að mæta á leiki liðsins.

Pláss verður fyrir allt að fimm hundruð vallargesti sem þá þurfi að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi sem megi ekki vera eldra en 48 klukkustunda gamalt þegar leikur hefst.

Allir gestir á leikjum í Ljónagryfjunni fæddir 2015 og eldri eru innan viðmiðunarhóps ofangreindra sóttvarna.

  • Heimilt er að hafa að hámarki fimm hundruð áhorfendur í hverju rými á íþróttaviðburðum að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
  • -
  • Allir gestir fæddir 2015 og fyrr framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi (antigen) sem má ekki vera eldra en 48 klst.
  • Að viðhöfð sé 1 metra nálægðarregla nema þegar gestir eru sitjandi.
  • Allir gestir séu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri. Séu gestir í föstum sætum skulu þeir skráðir í sæti. Skrána skal varðveita í tvær vikur og henni eytt að þeim tíma liðnum.
  • Allir gestir noti andlitsgrímu þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra nálægðarreglu (sjá þó um börn).
  • Ekki séu seldar veitingar í hléi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×