Lífið í Færeyjum er í öðrum takti en við eigum að venjast sem Ragnar segir að sé stór hluti af sjarma eyjanna.
Færeyingar eru sennilega draumaþjóð ljósmyndara. RAX hefur ferðast mikið til Færeyja og myndað mannlífið og auðvitað dýrin og náttúruna líka. Hann hefur myndað mikið af áhugaverðum og skrautlegum karakterum og í nýjasta þættinum af RAX Augnablik kom í ljós af hverju hann á svona margar flottar myndir af Færeyingum.
„Ef maður spyr einhvern, má ég taka mynd? Þá er það í góðu lagi, það er aldrei vandamál,“ útskýrir RAX. Í nýjasta þættinum af RAX Augnablik segir hann frá fýlaveiðimanninum Heine.
„Hann sagði ekki mikið, bara brosti og glotti. Svo var ég að mynda og einbeita mér að því sem var að gerast og bakka rólega aftur á bak. Þá allt í einu kemur svipur á hann og hann segir, bara rólega, nei þú skalt ekki fara lengra.“
Frásögnina má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. RAX Augnablik eru örþættir og þátturinn Á fýlaveiðum er tæpar fjórar mínútur.