Innlent

Viðburðahaldarar telja að ástandið geti endað með ósköpum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Tónlistarmenn æfa stíft fyrir vertíðina sem framundan er.
Tónlistarmenn æfa stíft fyrir vertíðina sem framundan er. Vísir/Vilhelm

Aðstandendur skipulagðra tónleika og viðburða sendu frá sér yfirlýsingu fyrr í kvöld. Með yfirlýsingunni vilja þau vekja athygli á mikilvægi þess að þrengja ekki frekar að viðburðarhaldi á næstu vikum og mánuðum.

Í yfirlýsingunni segir að það muni enda með ósköpum, ef þrengt verði meira að viðburðum með harðari takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins. Þau sem undir yfirlýsinguna skrifa, segjast fullviss um að geta boðið fólki upp á örugga leið til að njóta menningar og skemmtunar á skipulögðum viðburðum.

Þá telja aðstandendurnir enn fremur umhugsunarvert, að yfirvöld hérlendis, geri viðburðarhald erfiðara og flóknara í framkvæmd en víða í nágrannaríkjum. Endalaus óvissa sé til staðar enda geri breytingar á sóttvarnarreglum þeim ómögulegt að skipuleggja viðburði, með tilheyrandi taprekstri.

„Við viljum að sjálfsögðu standa saman á næstu vikum, virða sóttvarnir og fylgja þeim reglum sem okkur eru settar. En aftur á móti viljum við að okkur sé sýnd sú virðing að dyrum menningarlífsins sé ekki skellt enn og aftur í lás og þeir viðburðir sem þó eru í boði, innan settra reglna, séu talaðir niður af yfirvöldum og slegnir af,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Undir yfirlýsinguna skrifa meðal annars Björgvin Halldórsson, Emmsjé Gauti, Páll Óskar og Ari Eldjárn. Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×