Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá áhöfnina á Bjarna Ólafssyni AK, skipi Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, búa sig undir að leysa landfestar. Á vertíðinni í fyrra, sem var sú fyrsta í þrjú ár, hélt loðnuflotinn ekki til veiða fyrr en um miðjan febrúar á þessu ári.
„Við vorum að taka stóru loðnunótina um borð. Hún er í toppstandi og svo verður bara farið norður fyrir land,“ sagði Þorkell Pétursson, annar af tveimur skipstjórum Bjarna Ólafssonar, og segir verkefnið leggjast vel í áhöfnina.
„Við erum bara að fara að leita. Byrja á því.“

Loðnukvótinn núna, 660 þúsund tonn til íslenskra skipa, er sá stærsti í tæp tuttugu ár.
„Við höfum ekki verið með svona kvóta síðan 2002. Þannig að þetta er ærið verkefni,“ segir Þorkell. En býst hann við að margir aðrir haldi núna til veiða?
„Ja.. við erum fyrstir. Koma svo væntanlega hinir í kjölfarið, skipin sem eru í sama fyrirtæki. Menn eru að klára kvótana á síldinni.“
Þótt vertíðin í fyrra væri stutt og lítil í magni skilaði hún yfir tuttugu milljarða króna gjaldeyristekjum. Núna er því spáð að tekjurnar gætu orðið minnst þrefalt hærri.
En fyrst þarf að finna loðnuna. Hefur frést af loðnu?
„Einhverjar óljósar fréttir af togurum. Fá einhvern fisk með loðnu í. Og lítið ryk. Meira höfum við ekki frétt.“

-Og hvenær á svo að leggja í ‘ann?
„Ætli það verði nokkuð fyrr en á morgun. Það er nú bræla þarna allan daginn í dag og fram á morgundaginn. Svo rofar til.“
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Á vertíðinni í fyrra reyndust einstakir túrar ótrúlega gjöfulir: