Tónlistarverðlaunin eru ein af fimm verðlaunum sem Norðurlandaráð veitir ár hvert. Eftirfarandi hlutu verðlaun í kvöld. Rökstuðningur Norðurlandaráðs fylgir:
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2021
Hin sænska Elin Persson hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2021 fyrir bókina De afghanska sönerna. Verk sem gegnum bókmenntalega frásögn skapar andrúmsloft sem minnir á heimildarverk og byggir listilega upp mynd af veruleika þar sem enginn er góður eða vondur.
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2021
Danska kvikmyndin Flugt eftir handritsöfundinn og leikstjórann Jonas Poher Rasmussen, handritshöfundinn Amin og framleiðendurna Monicu Hellström, Charlotte de la Gournerie og Signe Byrge Sørensen hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2021 fyrir verk þar sem hið fagurfræðilega, pólitíska og mannlega fer saman í áhrifamikilli og listrænni heild.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2021
Færeyska tónlistarkonan Eivør Pálsdóttir hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2021 fyrir að hafa með þrotlausri vinnusemi sinni undanfarin ár beint sjónum umheimsins að heimalandi sínu og fyrir að vinna af kostgæfni með eigin tónlistararfleifð og móðurmál.
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2021
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2021 hlaut græna hugmyndasmiðjan Concito frá Danmörku fyrir gagnagrunninn Den Store Klimadatabase. Fyrirtækið hlýtur verðlaunin fyrir tækifæri gagnagrunnsins til að skapa grundvöll að sjálfbærari neyslu matvæla á Norðurlöndum.
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2021
Grænlenski rithöfundurinn Niviaq Korneliussen hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2021 fyrir skáldsöguna Naasuliardarpi (Blómadalurinn). Niviaq Korneliussen fær verðlaunin fyrir verk sem hefur að geyma frásögn sem er falleg en um leið sársaukafull og óvægin.