Skoðun

Að kona leiði kvennastétt!

Unnur Gísladóttir og Einar Ómarsson skrifa

Að vera kennari, vinna með börnum og ungmennum, vakna snemma til að taka glaðhlakkalega á móti einstaklingum með soðið kaffi í hendi og bros á vör eru algjör forréttindi. Það er krefjandi að vinna sem kennari, það er stundum flókið en oftast nær er það gefandi. Til að endast í starfi sem þessu þarftu eldmóð, þú þarft hlýju, umhyggju og hugrekki. Kennarar sem sitja vel í sér, geta gefið af sér, eru með skýr mörk og skýra rödd eru öðrum í samfélaginu til fyrirmyndar og eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir starfandi kennara eins og okkur.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir er þannig fyrirmynd, hún er ekki bara einstaklega vönduð kennslukona, heldur er hún baráttukona fyrir minnihlutahópa, leiðandi fagvísir á vettvangi, lóðsi og feminísk kanóna. Hún er okkur mörgum uppspretta orku í að halda áfram, gefast ekki upp þegar móti blæs. Hún stendur fremst meðal jafningja á sínu sviði og er ósérhlýfin þegar kemur að því að deila og gefa af sér.

Við viljum sjá konu sem þessa leiða okkar starf, við viljum sjá ósérhlífna konu sem stendur skýrt fyrir málstaðinn um bætt samfélag. Sem er ófeimin við að vera umdeild þegar hjartans mál eru í fyrirrúmi, sem lætur í sér heyra og stendur upp fyrir ekki bara nemendum og kennurum heldur samfélaginu og einstaklingunum. Konu sem þekkir starf kennara, hefur verið á gólfinu ólíkum faghópum til aðstoðar, sem situr í fagráðum og lætur sig málin varða.

Hanna Björg er ekki bara sú kona sem við viljum í þetta verk, hún er konan sem við þurfum í þetta verk. Hún hefur trú á því að kennarar eiga að vera leiðandi afl í samfélagslegri umræðu, að kennarar séu fagfólk sem þarf að hlusta á og virða. Hún getur talað þvert á skólastig og hún getur blásið okkur krafti og elju í brjósti, staðið með okkur, verið beitt og ákveðin. Hún er konan til að leiða þessa kvennastétt!

Unnur er framhaldsskólakennari og Einar er grunnskólakennari.




Skoðun

Sjá meira


×