Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg, segir að þau hafi orðið vör við fjölgun smita síðastliðnar tvær vikur. „Það var auðvitað búið að vara við því í síðustu viku að þetta kraumaði undir niðri og við erum orðin svolítið áþreifanlega vör við það,“ segir Gísli í samtali við fréttstofu.
Hann vísar til þess að mæting hafi verið dræm á málþing eldri borgara í vikunni, sem vanalega er þéttskipað, og rekur það til umræðunnar um smit í samfélaginu.
Þá hefur stjórn handknattleiksdeildar Selfoss ákveðið að fella niður allar æfingar og viðburði í dag og á morgun en nokkrir leikmenn og þjálfarar eru ýmist með Covid-19, í sóttkví eða í smitgátt.
„Mér sýnist að fólk sé farið að fara svona varlega. Við höfum nú af og til verið að alvarlegar fréttir í vikunni, fólk sem er að veikjast, þannig að við teljum bara að það sé alveg full ástæða fyrir fólk til að fara varlega,“ segir Gísli.
Hann segir fjölgun smitaðra einstaklinga hafa áhrif á samfélagið, einna helst þegar eitthvað gerist í skólum eða leikskólum. Áhrifin séu þó ekki orðin það mikil að það sjáist hreinlega á götum úti og enn sem komið eru áhrifin ekki mikil á starfsemi innan sveitarfélagsins.
Engu að síður er áfram mikilvægt að fara varlega.
„Við erum náttúrulega vel undirbúin og starfsfólkið okkar orðið gífurlega vel fært að takast á við þetta verkefni, en auðvitað er ekki nóg að vera vel undirbúin ef við gleymum okkur í einhverjum fögnuði yfir því að þetta sé búið þegar að svo er ekki rauninn,“ segir Gísli.