Þetta herma heimildir fréttastofu en Stundin greindi fyrst frá málinu. Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.
Athugun undirbúningsnefndarinnar í Borgarnesi beindist einna helst að auðum seðlum sem breyttust í ógilda seðla í endurtalningu yfirkjörstjórnar.
Uppgötvaðist umrætt atkvæði þegar nefndarmenn fóru yfir auðu seðlana en samkvæmt heimildum fréttastofu var það ætlað Framsóknarflokknum. Ekki hefur náðst í Birgi Ármannsson, formann undirbúningsnefndarinnar, við vinnslu þessarar fréttar en hann vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Stundina.

Undirbúningsnefnd kjörbréfa sögð á lokasprettinum
Greint var frá því fyrr í vikunni að undirbúningskjörbréfanefnd hafi lokið við að ræða við þá sem kærðu framkvæmd nýliðinna Alþingiskosninga til þingsins. Næstu dagar fari í frekari upplýsingaöflun og í framhaldinu verður ráðist í að skoða þá þætti sem eru matskenndir.
Framkvæmd endurtalningar í Norðvesturkjördæmi í kosningunum í lok september hefur dregið dilk á eftir sér. Auk þeirra tólf sem kærðu kosningarnar til Alþingis voru kosningarnar kærðar til lögreglu. Lögreglan á Vesturlandi hefur lokið rannsókn og boðið meðlimum yfirkjörstjórnar í kjördæminu að ljúka málinu með greiðslu sektar. Meðlimir hafa hafnað því að greiða sektina.
Meginþungi kæranna sem fram hafa komið lúta að sömu atriðunum varðandi framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi. Hafa kærendur meðal annars gagnrýnt að óinnsiglaðir atkvæðaseðlar hafi verið skildir eftir í talningarsal að lokinni talningu. Kalla margir þeirra eftir því að kosið verði aftur í Norðvesturkjördæmi.
Geta ekki fullyrt út frá myndbandsupptökum
Lögreglan á Vesturlandi getur ekki fullyrt út frá upptökum úr öryggismyndavélum hvort átt hafi verið við óinnsigluð kjörgögn í talningarsalnum á Hótel Borgarnesi. Á upptökum sést fólk ganga inn og út úr salnum á þeim tíma sem yfirkjörstjórn var heima á milli talningar og endurtalningar.
Í lögregluskýrslu er farið yfir að tvær eftirlitsmyndavélar séu í salnum og þrjár utan við innganga. Engin þeirra sýni hins vegar svæðið þar sem kjörgögn voru geymd á meðan yfirkjörstjórn var fjarverandi.
Endurtalning atkvæða í Norðvesturkjördæmi hrinti af stað mikilli hringekju við útdeilingu jöfnunarsæta eftir að í ljós kom að atkvæði Viðreisnar höfðu verið oftalin um níu og atkvæði Miðflokksins um fimm. Alls féllu fimm þingmenn út af þingi eftir endurtalninguna en hún hafði ekki áhrif á stærð þingflokka.
Fréttin hefur verið uppfærð.