Innlent

Enn á gjör­gæslu eftir al­var­lega líkams­á­rás í Reykja­nes­bæ

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn á vettvangi en var síðan sleppt úr haldi að lokinni skýrslutöku.
Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn á vettvangi en var síðan sleppt úr haldi að lokinni skýrslutöku. Vísir

Karlmaður á fimmtugsaldri er á gjörgæsludeild Landspítala eftir að hann varð fyrir alvarlegri líkamsárás fyrir utan skemmtistað í miðbæ Reykjanesbæjar á aðfaranótt síðastliðins laugardags.

Þetta staðfestir Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn við rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn á vettvangi en honum var sleppt úr haldi daginn eftir að loknum skýrslutökum. 

Fljótt kom í ljós eftir að lögregla kom á vettvang að um alvarlega líkamsárás væri að ræða þar sem þolandi lá án meðvitundar í götunni. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús og er enn á gjörgæslu. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu varð árásin fyrir utan skemmtistaðinn Paddy's Beach Club í Keflavík. Þá hafi árásin átt sér stað eftir lokun og fjöldi fólks hafi orðið vitni að henni. 

Að sögn Bjarneyjar miðar rannsókn málsins vel áfam en ekki verði veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu. 

Fréttin hefur verið uppfærð með réttu nafni Paddy's en áður sagði að hann héti Paddy's Irish Pub.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×