Innlent

Ekið á níu ára dreng og unga konu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pilturinn var aumur í hnjánum eftir slysið.
Pilturinn var aumur í hnjánum eftir slysið.

Ekið var á níu ára dreng á reiðhjóli í gær. Tilkynning barst um klukkan 17 og var sjúkrabifreið send á staðinn. Drengurinn var aumur í hnjánum eftir slysið en fór af vettvangi með móður sinni.

Frá þessu er greint í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefni gærkvöldsins og næturinnar. Ekki er tekið fram hvar slysið átti sér stað, nema að það hafi orðið á því svæði umdæmisins sem nær yfir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes. 

Þar er einnig greint frá því að um klukkan 18.30 hafi verið ekið á unga konu sem var gangandi. Konan hlaut áverka á hendi. Þá var tikynnt um umferðaróhapp í Mosfellsbæ, þar sem kona missti stjórn á bifreið sinni og ók útaf. Fann hún til eymsla í öxl.

Um klukkan 22.30 barst lögreglu tilkynning um rán á veitingastað í póstnúmerinu 112. Þar hafði maður opnað afgreiðslukassa og tekið peninga. Starfsmaður sá til mannsins og var hótað með eggvopni. Þjófurinn náði að hlaupast á brott en málið er í rannsókn.

Þá barst tilkynning um eld í bifreið í Vesturbænum um kvöldmatarleytið. Slökkvilið kom á staðinn og slökkti í bílnum en eldurinn er sagður hafa komið frá vélinni. Næstu bifreiðar voru færðar frá og umræddur bíll fluttur af vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×