Körfubolti

Bene­dikt valdi þrjá ný­liða í kvenna­lands­liðið fyrir nóvember­leikina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Ingunn Svansdóttir hefur byrjað tímabilið frábærlega og er einn af nýliðunum í íslenska landsliðinu að þessu sinni.
Anna Ingunn Svansdóttir hefur byrjað tímabilið frábærlega og er einn af nýliðunum í íslenska landsliðinu að þessu sinni. Vísir/Bára Dröfn

Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta, hefur valið liðið sitt fyrir fyrstu tvo leikina í undankeppni Evrópukeppni kvenna en keppnin fer af stað í nóvember.

Benedikt valdi þrjá nýliða í hópinn að þessu sinni en það eru Keflvíkingurinn Anna Ingunn Svansdóttir, Fjölniskonan Dagný Lísa Davíðsdóttir og Haukakonan Elísabeth Ýr Ægisdóttir.

Hildur Björg Kjartansdóttir, Val, og Isabella Ósk Sigurðardóttir, Breiðablik, eru báðar meiddar og geta ekki leikið. Þá hefur Guðbjörg Sverrisdóttir einnig verið að glíma við meiðsli að undanförnu og er að hefja leik að nýju.

Systir hennar Helena Sverrisdóttir meiddist líka í gær og það er því óvissa með hennar þátttöku í þessu verkefni.

Sigrún Björg Ólafsdóttir, sem leikur í háskóla í USA, var valin í hópinn, en gat ekki tekið þátt að þessu sinni vegna anna með skólanum úti.

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari kvennaliðs Vals, hefur tekið að sér aðstoðarþjálfarahlutverk í liðinu, og verður ásamt Halldóri Karli Þórsyni, í aðstoðarþjálfarateymi landsliðsins.

Danielle Rodriguez sem hefur verið aðstoðarþjálfari landsliðsins flutti í vor til Bandaríkjana en hún tók að sér aðstoðarþjálfarastöðu í San Diego State háskólanum í Kaliforníu.

Leikið verður í núna í fyrsta landsliðsglugganum í undankeppninni núna í nóvember. Næstu gluggar verða svo í nóvember 2022 og febrúar 2023 en mótherjar Íslands í riðlinum eru Spánn, Ungverjaland og Rúmenía.

Leikið er heima og að heiman og fer efsta liðið beint á EM2023 en möguleiki er fyrir besta annað sætið að fylgja með á lokamótið (fjögur lið með bestan árangur úr öllum undanriðlunum tíu).

Núna í nóvember á Ísland sína fyrstu tvo leiki, fyrst verður leikið á útivelli gegn Rúmeníu þann 11. nóvember í Búkarest, og svo hér heima gegn Ungverjalandi. Heimaleikurinn fer fram í Ólafssal á Ásvöllum sunnudaginn 14. nóvember kl. 20:00.

  • Íslenska kvennlandsliðið fyir leiki í nóvember 2021:
  • Anna Ingunn Svansdóttir · Keflavík (Nýliði)
  • Ásta Júlía Grímsdóttir · Valur (2 landsleikir)
  • Bríet Sif Hinriksdóttir · Haukar (6)
  • Dagbjört Dögg Karlsdóttir · Valur (8)
  • Dagný Lísa Davíðsdóttir · Fjölnir (Nýliði)
  • Embla Kristínardóttir · Skallagrímur (21)
  • Elísabeth Ýr Ægisdóttir · Haukar (Nýliði)
  • Hallveig Jónsdóttir · Valur (25)
  • Helena Sverrisdóttir · Haukar (77)
  • Lovísa Björt Henningsdóttir · Haukar (6)
  • Sara Rún Hinriksdóttir · Phoenix Constanta, Rúmenía (23)
  • Þóra Kristín Jónsdóttir · AKS Falcon, Danmörk (21)
  • -
  • Þjálfari: Benedikt Guðmundsson
  • Aðstoðarþjálfarar: Halldór Karl Þórsson og Ólafur Jónas Sigurðsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×