Handbolti

Janus og félagar björguðu stigi í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Daði Smárason og félagar hans í Göppingen björguðu stigi gegn Íslendingaliði Melsungen.
Janus Daði Smárason og félagar hans í Göppingen björguðu stigi gegn Íslendingaliði Melsungen. Harry Langer/DeFodi Images via Getty Images

Janus Daði Smárason og félagar hans í Göppingen björguðu stigi gegn Íslendingaliði MT Melsungen með Arnar Freyr Arnarsson, Elvar Örn Jónsson og Alexander Petersson innanborðs í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Lokatölur 26-26, en Göppingen var mest fimm mörkum undir í seinni hálfleik.

Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu mínúturnar, en fljótlega tóku gestirnir í Melsungen forystuna. Þeir komust fljótlega í fjögurra marka forystu í stöðunni 8-4, og héldu því forskoti út hálfleikinn.

Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 14-10, Melsungen í vil.

Melsungen náði fimm marka forskoti í stöðunni 16-11, en þá komu fjögur mörk í röð frá heimamönnum í Göppingen og munurinn kominn niður í eitt mark.

Melsungen náði aftur þriggja marka forskoti, áður en Göppingen jafnaði leikinn með þremur mörkum í röð. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur, og það reyndist erfitt að skilja þau að.

Melsungen virtist þó ætla að stela sigrinum og komst í tveggja marka forystu þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka, en tvö heimamörk í röð björguðu stigi fyrir Göppingen.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Íslendinga með þrjú mörk. Næstur kom Alexander Petersson með eitt, en Janus Daði og Arnar Freyr komust ekki á blað.

Þetta var annað jafnteflið í röð hjá Göppingen sem situr í fjórða sæti deildarinnar með tíu stig eftir sjö leiki, fjórum stigum meira en Melsungen sem situr í því áttunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×