Hannes Þór Halldórsson og Kári Árnason verða heiðraðir fyrir leik Íslands og Liechtenstein sem hefst klukkan 18:45. Rétt áður en þjóðsöngvarnir verða leiknir stendur til að hylla leikmennina tvo og KSÍ hvetur því áhorfendur til að mæta tímanlega.
Hannes og Kári léku báðir sína síðustu landsleiki í yfirstandandi undankeppni HM. Þó að sú keppni hafi ekki gengið sem skyldi geta þeir ornað sér við minningar um risastórar stundir í íslenskri íþróttasögu, líkt og í lokakeppni EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi 2018 þar sem þeir voru báðir áberandi.
Hannes, sem er 37 ára gamall, lék sinn fyrsta landsleik í september 2011 þegar hann hélt markinu hreinu í 1-0 sigri á Kýpur í undankeppni EM, undir stjórn Ólafs Jóhannessonar. Hann lék alls 77 landsleiki og bætti met Birkis Kristinssonar um þrjá leiki, yfir flesta landsleiki markvarðar fyrir Ísland.
Hannes hefur lagt landsliðstreyjuna á hilluna en ætlar að halda áfram að spila fótbolta, þó svo að óvíst sé að það verði með núverandi liði hans Val.
Kári á einn leik eftir á Laugardalsvelli
Kári hefur aftur á móti ákveðið að bikarúrslitaleikurinn gegn ÍA á laugardaginn verði sinn síðasti leikur á ferlinum.
Kári, sem varð Íslandsmeistari með Víkingi á dögunum, er 38 ára gamall og lék slétta 90 A-landsleiki fyrir Ísland. Líkt og Hannes varð Kári fastamaður í byrjunarliði Íslands eftir að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson höfðu tekið við stjórnartaumunum árið 2012.
Fram að því hafði hann þó leikið vel á annan tug landsleikja en fyrsti landsleikur Kára var vináttulandsleikur gegn Ítalíu í mars 2005, þegar liðin gerðu markalaust jafntefli.