Tónlist

Adele tryllir netverja með stiklu úr nýju lagi

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Adele gefur út nýtt lag þann 15. október næstkomandi sem heitir Easy On Me. Hún hefur haldið sig úr sviðsljósinu að mestu síðan 2017.
Adele gefur út nýtt lag þann 15. október næstkomandi sem heitir Easy On Me. Hún hefur haldið sig úr sviðsljósinu að mestu síðan 2017. Getty/Ronald Martinez

Breska söngkonan Adele gerði aðdáendur sína vægast sagt hamingjusama fyrr í dag þegar hún greindi frá því að nýtt lag væri væntanlegt síðar í mánuðinum. 

Adele greindi frá því á Twitter að lagið Easy On Me væri væntanlegt þann 15. október næstkomandi og lét með fylgja bút úr laginu og tónlistarmyndbandinu. Þar sést glitta í söngkonuna frægu í bíl en myndbandið er í svarthvítu.

Óhætt er að segja að mikil spenna sé nú meðal netverja en í gær voru uppi ýmsar vangaveltur á Twitter um að von væri á fjórðu plötunni frá söngkonunni, að því er kemur fram í frétt Daily Mail. Þá hafa auglýsingar með tölunni 30 víða um heim ýtt undir það að ný plata sé væntanleg.

Adele hefur þegar gefið út þrjár plötur og er titill þeirra alla ákveðin tala, sem segir til um aldur söngkonunnar. Hún gaf til að mynda út plötuna 19 árið 2008, 21 árið 2011 og 25 árið 2015. 

Sjálf hefur hún ekki talað nýverið um að önnur plata sé á leiðinni en árið 2019 virtist hún ýja að því á Instagram að ný plata, sem hún kallaði einmitt 30 þá, væri í vinnslu. Ætla má að ný plata muni meðal annars taka á skilnaði Adele og Simon Konecki en þau tilkynntu um skilnaðinn árið 2019. 

Í síðasta mánuði bárust fréttir af því að stórtónleikar með Adele ættu að fara fram fyrir jól þar sem nýja platan yrði frumsýnd. Talið er að útgáfufyrirtækið Sony stefni á að platan verði frumsýnd í nóvember. Það hefur þó ekki verið staðfest en engu að síður bíða aðdáendur spenntir.


Tengdar fréttir

Adele sækir um skilnað

Söngkonan Adele hefur sótt um skilnað frá eiginmanni sínum Simon Konecki en BBC greinir frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×