Fréttastofa fjallaði nýlega um nýframkvæmd í Breiðholti þar sem íbúar lýstu því hvernig verkefnið fór algjörlega úrskeiðis í höndum verktaka. Þá kom fram að verkfræðistofa sem var ráðin til að hafa eftirlit og umsjón með verkinu hafi ekki sinnt því. Um er að ræða tugamilljóna króna framkvæmd sem þarf samkvæmt óháðum aðila að vinna upp á nýtt.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir of algengt að verktakar skili af sér ófullgerðum verkum.
„Við fáum reglulega til okkar dæmi um verktaka sem ekki standast kröfur eða standa ekki við verk sín og yfirleitt eru þetta stór og viðamikil mál,“ segir Breki.
Hann segir þó óvanalegt að eftirlit eins og virðist vera í þessu dæmi sé líka í ólagi.
„Það virðist vera sem húsfélagið hafi verið að gera allt sitt til að koma í veg fyrir svona gallamál með því að ráða verkfræðistofu til að hafa eftirlit og umsjón með verkinu. En því miður virðist það eftirlit og sú umsjón ekki hafa staðist. Við höfum ekki fengið beint svona dæmi um að eftirlitsaðili sinni ekki verkefni sínu. Það er sjaldgæft að eftirlitið klikki líka. Hins vegar eru fjölmörg mál þar sem aðilar hafa farið í gjaldþrot og ekki klárað verk en samt þegið greiðslu að hluta eða heild eins og gerðist í þessu tilviki,“ segir Breki.
Allt virðist fara úrskeiðis í þessu máli.
„Það virðist allt hreinlega klikka í þessu máli,“ segir hann.
Hann segir afar mikilvægt að fólk kynni sér verktaka áður en þeir séu fengnir í framkvæmdir.
„Svona mál eru of algeng og eitthvað sem við verðum að takast á því þetta er stórtjón fyrir þá sem lenda í þessu en þetta er líka þjóðfélagstjón,“ segir Breki.
Breki segir að bregðast þurfi við kennitöluflakki með markvissum aðgerðum.
„Til að koma í veg fyrir svona kennitöluflakk og fúsk þá verða að koma til aðgerðir stjórnvalda og félagasamtaka. Með því væri hægt að leggja á raunverulegt atvinnubann á þá sem stunda slíkt,“ segir Breki.