Myndband sem Einar Sverrison tók við Bláfellsgjá í gær hefur verið í nokkurri dreifingu á samfélagsmiðlum, þar sem sjá má gufu stíga upp úr jörðinni í grennd við Keili.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að þarna gæti verið um að ræða vísbendingu um að kvika væri komin nógu hátt til að hita grunnvatnið, ekki væri ólíklegt að kvika væri kominn mjög nálægt yfirborði.
Aðspurð um myndbandið og það sem á því sést bendir Sigþrúður Ármanssdóttir, vakthafandi náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, hins vegar á að umrætt svæði sé þekkt jarðhitasvæði, og að þar hafi gufa áður sést stíga upp úr jörðinni.
Skjálftarnir enn á sama dýpi
Sigþrúður bendir á að skjálftarnir séu enn að mælast fimm til sjö kílómetra dýpi, og að þeir séu enn sem komið er ekki að færast nær yfirborði jarðar.
„Skjálftarnir sem við höfum verið að fylgja með eru ennþá á þessu sama dýpi,“ segir hún.
Svæðið í grennd við Keili er undir stöðugri vöktun vegna jarðskjálftahrinu sem virðist staðsett í norðurenda kvikugangsins sem myndaðist við eldsumbrotin í Geldingadölum. Þar hafa mælst yfir tvö þúsund skjálftar á undanförnum dögum.
Áfram fylgst náið með stöðunni
Alls hafa mælst fjögur hundruð skjálftar frá miðnætti, þar af einn sem var þrír að stærð, klukkan fimm í morgun.
Heldur færri skjálftar mældust í gær en í fyrradag og engar sjáanlegar breytingar eru á svæðinu.
„Þetta lullar bara áfram í sínum taki,“ segir Sigþrúður.
Í gær greindi Veðurstofan frá því að nýjustu mælingar á jarðskorpuhreyfingum sýni engin skýr merki um að kvika sé við það að brjóta sér leið til yfirborðs á slóðum skjálftahrinunnar.
Það útiloki hinsvegar ekki að kvika sé á hreyfingu á miklu dýpi sem ekki sæist í mæligögnum og því sé nauðsynlegt að fylgjast enn frekar með þróun virkninnar við Keili, sem minni á aðdraganda gossins við Fagradalsfjall.